Sagan okkar

1918 | Íslensk bjartsýni allt frá stofnun

Saga Freyju er í senn rómantísk og merkileg. Hún er elsta starfandi sælgætisgerð landsins, stofnuð árið 1918 af fjórum ungum athafnamönnum sem kynntust í námi hjá Gloups sælgætisgerð í Kaupmannahöfn.
 Stofnendurnir voru Magnús Þorsteinsson kökugerðarmeistari, Þorbergur Kjartansson kaupmaður, Akureyringurinn Brynjólfur Þorsteinsson og sænski kökugerðarmeistarinn Allan Jönsson.

Fyrstu árin var starfsemin til húsa á Vesturgötu þar sem framleiddar voru Freyju karamellur og súkkulaðivörur undir merkjunum Valencia, Petit og Capello.

Árið 1918 varð eftirminnilegt í sögu þjóðarinnar, en það hófst með miklum frosthörkum sem þrengdi verulega kosti þjóðarinnar. Þá tók við Kötlugos og spænska veikin geisaði um landið. Ísland varð síðan fullvalda þjóð sunnudaginn 1. desember 1918. Það má því segja að þessir ungu athafnamenn hafi sýnt mikla áræðni eftir harðindin og bjartsýni á miklum umbrotatímum.

1919–1939 | Brött en gjöful ár

Árið 1919, aðeins ári eftir stofnun félagsins, var Freyja orðin súkkulaði- og konfektverksmiðja sem framleiddi bæði átsúkkulaði og konfekt auk suðusúkkulaðis. Áhersla var lögð á smekklegar og vandaðar vörur, sem fljótt urðu órjúfanlegur hluti af íslensku jólahaldi. Magnús Þorsteinsson varð aðaleigandi fyrirtækisins nokkrum árum eftir stofnun.

Ör vöxtur Freyju krafðist stærra húsnæðis og flutti starfsemin  í nýtt húsnæði á Lindargötu 14. Árið 1933 var fjárfest í nýjum vélum frá Þýskalandi sem auðvelduðu framleiðslu og næstu árin jók Freyja jafnt og þétt vöruframboðið við góðar undirtektir þjóðarinnar. Litu þá dagsins ljós vörur sem sannarlega hafa staðist tímans tönn og enn má finna í búðarhillum landsins, þar á meðal Staur, Marzipanbrauð og Hrís.
 Samkeppni á sælgætismarkaði jókst þó ört og fleiri sælgætisgerðir tóku til starfa. Innflutningshöft á erlendu sælgæti og háir tollar á aðkeyptu hráefni gerðu reksturinn bæði krefjandi og skapandi.

1940–1979 | Rís á markað og allt gengur eins og í sögu

Upp úr 1940 kynnti fyrirtækið fyrstu útgáfu af Freyjukettinum sem vörumerki, en köttur Magnúsar Þorsteinssonar bar einmitt nafnið Freyja.

Árið 1945 hófst framleiðsla á Rís-súkkulaðistykkinu, sem enn þann dag í dag er mest selda súkkulaðistykki fyrirtækisins. Freyja framleiddi áfram karamellur og fjölbreytt úrval súkkulaðis og naut mikilla vinsælda.

Árið 1959 keyptu Viggó Jónsson og Sæmundur Stefánsson fyrirtækið og héldu áfram rekstri. Árið 1974 festu Guðmundur Jónsson og Kjartan Sigurjónsson kaup á hlutaféi í Freyju.

1980–1996 | Uppgangsár í sælgætisgerð

Árið 1980 keyptu Guðmundur Jónsson og synir hans, Ævar og Jón, allt hlutafé fyrirtækisins. Um svipað leyti var innflutningur á erlendu sælgæti gefinn frjáls. Þá flutti Freyja starfsemi sína í nýtt húsnæði að Kársnesbraut 104, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru enn í dag.

Árið 1984 kom Draumur á markað, súkkulaði með Freyju lakkrís, sem var byltingarkennd nýjung að því leyti að það var í fyrsta sinn sem lakkrís var settur inn í súkkulaði. Hann hefur allar götur síðan verið stærsta vörumerki Freyju.

Í kringum aldamótin hóf Freyja mikla sókn í markaðssetningu og hlaut fjölda verðlauna fyrir frumlegar auglýsingaherferðir, m.a. „…ef gottið er gott, heitir gottið Freyja“ og Villiköttur með Jóni Gnarr.

Aldamótin | Poppkúltúr og alþjóðavæðing

Um aldamótin breyttist markaðsumhverfið þar sem alþjóðavæðingin hófst fyrir alvöru. Poppkúltúr fékk byr undir báða vængi með PoppTíví, og Freyja hóf samstarf við helstu íslensku poppstjörnurnar í auglýsingum fyrir Rís og Draum.

2002 | Djúpur

Árið 2000 keypti Freyja lakkrísgerðina Skugga á Djúpavogi með öllum vélakosti. Eftir langt þróunarferli var Djúpur kynntur til sögunnar árið 2002 og hefur síðan notið vinsælda bæði hérlendis og erlendis.

2005 | Ný kynslóð páskaeggja

Árið 2004 festi Sælgætisgerðin Freyja kaup á Mónu sem bjó meðal annars yfir öflugum páskaeggjavélakosti, en Freyja hafði þá ekki framleitt páskaegg um tíma. Í kjölfarið hófst þróun á nýjum tegundum páskaeggja þar sem sælgæti var sett inn í skelina og árið 2005 kom Ríseggið á markað. Ríseggið var algjörlega byltingakennt á þeim tíma og í kjölfarið fylgdi eftir Draumaegg. Allar götur síðan hefur markaðshlutdeild Freyju á páskaeggjamarkaði aukist árlega.

2007 | Svar við nýjum tímum

Á árunum 2007–2008 hóf Freyja framleiðslu á prótein- og orkustykkjum í takt við breytt neyslumynstur þjóðarinnar. Vörumerkið Kraftur, próteinstykki ætlað þeim sem þurfa kraft fyrir afrek dagsins, er orðið einn af burðarásum í vöruflokknum. Við vöruþróun á Krafti voru fengnir þjálfarar og íþróttafólk til liðs við Freyju til að tryggja rétta samsetningu á vörunni

2021 | Leitað aftur í rætur Freyju

Þrátt fyrir langa hefð í súkkulaðigerð hafði Freyja verið lítt áberandi á súkkulaðiplötumarkaði. Árið 2021 sneri fyrirtækið aftur með nýjum súkkulaðiplötum sem vöktu strax mikla athygli. Undirmerki eins og Bombur og Djúpur styrktu línuna og Íslendingar fundu á ný hve framúrskarandi uppskriftir Freyja býr yfir.

2022 | Frá einni fjölskyldu til annarrar

Í nóvember 2022 keypti Langisjór, fjölskyldufyrirtæki í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, Freyju. Langisjór er móðurfélag fyrirtækja í matvælaframleiðslu og dreifingu auk fasteignaþróunar og útleigu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis.
 Freyja er áfram rekið sem fjölskyldufyrirtæki í sókn og nýtur stuðnings stoðþjónustu Langasjávar.

Nýsköpun og vöruþróun Freyju á að stuðla að varanlegum vexti og er það markmið að vörunýjungar verði hluti af fleiri gleðistundum, skemmtilegum hefðum og góðum minningum hjá þjóðinni.

2023 | Nýtt upphaf að Freyju konfekti

Árið 2023 endurvakti Freyja konfektgerðina sem á sér rætur frá stofnun árið 1918. Við nýtt upphaf Freyjukonfekts mætast nýsköpun, einstakt handbragð og aldagömul hefð.

Í dag vekur Freyju konfekt gleði og tilhlökkun, hvort sem er á hátíðarstundum eða þegar við viljum brjóta upp hversdaginn. Tilgangurinn er að færa fólk saman og skapa bragðgóðar minningar. Lykt, bragð og áferð kalla fram góðar minningar um samverustundir og hlýjar tilfinningar í garð þeirra sem standa okkur næst.